Úti er inni er rafrænt fréttabréf um útinám í Reykjavík sem gefið er út af Miðstöð útivistar og útináms. Markmiðið með útgáfunni er að ýta undir útinám í borginni og gera sýnilegt það áhugaverða starf sem þegar á sér stað. Við óskum eftir stuttum greinum og myndum í fréttabréfið.

Til að senda okkur efni í fréttabréfið, eða fá nánari upplýsingar má senda fyrirspurnir á netfangið muu@reykjavik.is

Úti er inni

Hér er hægt að lesa nýjasta Úti er inni fréttabréfið (pdf).

Fréttabréfið er sent rafrænt á starfsmenn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og aðra sem hafa áhuga á útivist og útinámi. Ef þú ert ekki á póstlistanum og vilt fá þetta fréttabréf sent til þín þá geturðu skráð þig á póstlistann hér fyrir neðan:

GRÆN SKREF REYKJAVÍKURBORGAR

Verkefnið Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar snýst um að efla vistvænan rekstur í starfsemi borgarinnar og minnka umhverfisáhrif sveitarfélagsins. Samkvæmt loftslagsstefnu og aðgerðaráætlun um kolefnishlutleysi árið 2040, sem sett var fram árið 2009 og endurskoðuð 2016, verða allir vinnustaðir Reykjavíkurborgar að tileinka sér grænar áherslur í rekstri og vera aðilar að Grænum skrefum Reykjavíkurborgar.

Grænu skrefin eru fjögur skref með aðgerðum sem hjálpa til við að gera rekstur og starfsemi vistvænni. Í hverju skrefi verða aðgerðirnar veigameiri, þar sem vinnustaðir halda grænt bókhald og setja sér umhverfisleg markmið.

Með þessu er hægt að draga verulega úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni og efla vistvænni innkaup og rekstur.
Sjá nánar hér: http://graenskref.reykjavik.is/

SJÁLFBÆRNI SKÓLASAMFÉLAGS

Náttúruskóli Reykjavíkur ásamt Ártúnsskóla tóku þátt í Erasmus+ samstarfsverkefninu ECORoad – Improving education for sustainable development through development of school culture. Aðrir skólar og samstarfsaðilar voru frá Finnlandi, Belgíu og Englandi. Verkefnið hófst í september 2016 og hlaut Erasmus+ styrk til þriggja ára. Markmið verkefnisins er að bæta menntun í sjálfbærni með þróun á skólasamfélaginu sem heild. Verkefnið var tvískipt. Annars vegar var um að ræða námsdvöl kennara í þeim skólum sem tóku þátt í verkefninu og hins vegar vinnufundi þar sem fram fór upplýsingaöflun, undirbúningur og fræðsla sem m.a. var nýtt í gerð handbókar.

Vefsíða verkefnisins er https://ecoroad.weebly.com/ en handbókina má nálgast með því að smella á myndina hér til hliðar.

KOLEFNISREIKNIVÉLIN

Landsmenn þurfa að minnka kolefnissporið sitt verulega. Neysludrifið kolefnisspor hins almenna íbúa á Íslandi er um 12 tonn CO₂ ígilda á ári en þyrfti nú þegar að vera um 4 tonn CO₂ ígilda til að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C markmiðs Parísarsamkomulagsins.

Nú getur þú reiknað kolefnissporið þitt fyrir síðastliðna 12 mánuði og fengið upplýsingar um hvað þú getur gert til að minnka það. Miðaðu forsendurnar við þig sem einstakling en ekki út frá rekstri alls heimilisins.

SKÓLAR Á GRÆNNI GREIN

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) eru alþjóðlegt verkefni sem menntar milljónir nemenda í 67 löndum víðsvegar um heim í sjálfbærni og umhverfisvernd. Verkefnið byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða. Verkefnið er í umsjá Landverndar

Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Ef skólinn nær  markmiðum sínum fær hann að flagga grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

JÖRÐ Í HÆTTU

Jörð í hættu!? er nemendastýrt þemaverkefni sem samþættir náttúru- og samfélagsgreinar í unglingadeild. Verkefnið tekur mið af hæfniviðmiðum og lykilhæfni Aðalnámskrár frá 2011 sem byggja á grunnhugmyndum um menntun á 21. öldinni.

Jörð í hættu!? byggist á 5 þemum sem eru Loft, nauðsynjar, Rusl, Vatn og geta til aðgerða.

Öll eru þemun eins uppbyggð; stutt kveikja, umræður, nemendur skipuleggja sig og hanna rannsóknarspurningu og njóta þar leiðsagnar kennara. Nemendur ákveða hvaða viðfangsefni innan þemans þeir taka og einnig á hvaða hátt þeir vinna það og koma því frá sér. Áhersla er lögð á gagnrýna hugsun, sköpun, frumkvæði og frumleika.

HREINT HAF NÁMSEFNI

Landvernd hefur gefið út nýtt námsefni um hafið. Rafbókin Hreint haf fjallar um haflæsi (ocean literacy) og áhrif mengunar á hafið. Hafið er notað sem rauður þráður í kennslu um loftslagsbreytingar, neyslu og sjálfbærni.

Haflæs manneskja gerir sér grein fyrir mikilvægi hafsins í lífi okkar og annarra lífvera á jörðinni og vinnur að því að gæta að heilbrigði hafsins. Haflæs manneskja miðlar upplýsingum um hafið á áhrifaríkan hátt og tekur upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í daglegu lífi sem styðja við heilbrigði hafsins.