Dagur íslenskrar náttúruKæra skólafólk,

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og eru skólar hvattir til þess að hafa daginn í huga í starfsemi sinni. Líkt og fyrri ár leggja umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms hjá Reykjavíkurborg, til grunnskólaverkefni í tengslum við Dag íslenskrar náttúru. Verkefnið, sem er öllum opið, hefur fengið góðar viðtökur í grunnskólum víða um land.

Fátt hefur mótað íslenska þjóð eins og íslensk náttúra. Íslendingar hafa þurft að aðlaga líf sitt á harðbýlu landi og þroskast samhliða kröftugum náttúruöflum og gjöfulli náttúru.   Það mætti því segja að við þurfum að skilja íslenska náttúru til að geta skilið kjarnann í okkur sjálfum. Til að skilja náttúruna þurfum við að þekkja hana og fá að upplifa hana.

Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru þetta árið ætlum við því að bjóða nemendum í ímyndað ferðalag í formi ratleiks um náttúru Íslands. Verkefnið er hannað með möguleika á samvinnu milli árganga í huga. Að þessu sinni er áhersla lögð á sérstöðu náttúrufyrirbrigða íslenskrar náttúru og eru þau samofin, á ævintýralegan hátt, íslensku dýraríki, þjóðlegum vættum og öðrum furðuverum.