Miðstöð útivistar og útináms býður upp á skemmtilega og fræðandi dagskrá tileinkaðri skóla- og frístundastarfi í Reykjavík undir nafninu „Úti er ævintýri“.  Vordagskráin okkar er tileinkuð unglingastigi og ber heitið, Neysluveislan. Neysluveislan er umhverfismiðaður og skemmtilegur snjall-ratleikur sem tekur fyrir málefni ábyrgrar neyslu og framleiðslu.

Efni dagskrárinnar er tileinkað umhverfismálum með sérstakan fókus á tólfta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Verkefnið tekur á vistfræðilegum fótsporum helstu neysluflokka einstaklinga og veltir upp hvað við getum gert til að gera lifnaðarhætti okkar sem sjálfbærasta.

Neysluveislan í hnotskurn

  • Tímabil: 13.04.-19.05.2021
  • Tímasetning: þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 10H00-12H00
  • Aldursstig og fjöldi: Unglingastig (8-10 bekkur) – einn bekkur (mest 30 börn)
  • Dagskrá: Snjallratleikur unnin í spjaldtölvum (Actionbound)
  • Efnistök: Neysluveislan – Sjálfbærni-ábyrg neysla og framleiðsla
  • Tenging við Aðalnámskrá grunnskóla: Neysluveislan er beintengd inn í menntagildi og megintilgang náttúrugreina en kemur einnig inn á upplýsinga – og tæknimennt.
  • Sérstakar áherslur: náttúru- og umhverfisvitund, sjálfbærni, sjálfsefling.

 

ATHUGIÐ! Á þriðjudögum og föstudögum stendur skólum til boða að þiggja rútuþjónustu fyrir hópinn, frá og til skóla, sér að kostnaðarlausu. Rútuferðir bókast sér. Ekki er unnt að bjóða rútuferðir á miðvikudögum og verða þeir skólar að koma sér sjálfir á staðinn.

Bókanir á dagskrá og rútuþjónustu má finna HÉR

Miðstöð útivistar og útináms býður öllum starfsstöðum SFS að nýta sér rausnalega niðurgreidda rútuþjónustu í formi hópferða innanbæjar,  tímabilið apríl til júlí 2021. Við köllum þessa þjónustu Út og suður ! 

Út og suður er tilraunaverkefni og hluti af stærra úrræði sem hrint var af stað á erfiðum tímum Covid farsóttar. Hún er okkar leið til að koma til móts við allar menntastofnanir SFS,  í skertri og flókinni starfssemi á erfiðum tímum. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar (SFS) og SBA Norðurleið. Með þeirra dygga stuðningi höfum við, auk Út og suðurs, getað boðið upp á fríar rútuferðir fyrir hópa SFS í eftirfarandi námstækifæri vorönn 2021:

Við eigum þá ósk eina að þetta tilraunaverkefni verði að framtíðarverkefni svo við getum haldið áfram að létta á með starfsfólki SFS og gera börnum borgarinnar kleift að sækja heim þá frábæru námsþjónustu sem þeim stendur til boða utan veggja skólans.

Við minnum á málþing SÁÚ á morgun, fimmtudaginn 18. mars í samstarfi við Miðstöð útivistar og útináms í Reykjavík og Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Við fáum heimsókn frá Lýðskólanum á Flateyri, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, leik- og grunnskólanum Bláskógaskóla á Laugarvatni og leikskólanum Sólborg á Ísafirði.

Skráning í Hlöðuna við Gufunesbæ hér

Einnig er hægt að fylgjast með málþinginu í streymi á Youtube hér

Dagskrá

Upphitun fordrykkur
15:30 – 16:00 Spjallað og spurt við varðeldinn
Staðarhaldarar í Miðstöð útivistar og útináms verða með heitt kakó og kaffi á könnunni.

16.00 Velkomin á málþing SÁÚ í Hlöðunni við Gufunesbæ

16.10 Lýðskólinn á Flateyri og mikilvægi útivistar, Hafið, fjöllin og þú
:: Ingibjörg Guðmundsdóttir – skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri::
Nám fyrir þá sem vilja öðlast færni í að ferðast um náttúruna og byggja upp traust og virðingu fyrir hennií gegnum mörg og mismunandi námskeið.

16.30 Fjallamennskunám FAS, þróun náms í nýrri atvinnugrein
:: Eyjólfur Guðmundsson skólameistari Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu::
Fjallað um tíu ára þróunarsögu náms í fjallamennsku við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, tengslvið starfendur, fyrirtæki og stoðkerfið í greininni innanlands og utan.

16.50 Kaffi & te

17.00 Skíðaganga sem hluti af útinámi
::Jóna Lind Kristjánsdóttir – Deildarstjóri á leikskólanum Sólborg – Ísafirði::
Kynning á gönguskíðakennslu fyrir börn á deildinni Tanga í leikskólanum Sólborg á Ísafirði.

17.20 Útiskólinn í Bláskógaskóla Laugarvatni. Að grípa tækifærin sem umhverfið býður upp á
::Brynja Hjörleifsdóttir aðstoðarleikskólastjóri og Barbara Georgsdóttir Fialová kennari::
Fjallað um útiskóla og tengsl milli skólastiga í samreknum leik- og grunnskóla þar sem nemendur læra umsamfélagið, umhverfið, félagsfærni og gildi í gegnum náttúruna á Laugarvatni.

17.40 Samantekt

Varðliðar umhverfisins er yfirskrift verkefnasamkeppni grunnskólabarna í 5. til 10. bekk sem var haldin í fyrsta skipti vorið 2007. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms standa að keppninni.

Markmið
Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.

Verkefnin
Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ritgerðir, ljósmyndir, ljóð, veggspjöld, bæklingar, myndbönd og hljóðverk og geta verið á hvaða formi sem er. Lögð er áhersla á að frumkvæði nemenda sé sýnilegt bæði við undirbúning og úrvinnslu verkefnanna og mikilvægt er að gögn séu unnin af nemendum sjálfum.

Óskað er eftir verkefnum sem fjalla um umhverfismál í víðum skilningi og hafa jákvæð áhrif á hegðun og viðhorf til umhverfisins, innan skólans og utan. Einnig styrkir verkefnin að þau feli í sér nýja sýn á umhverfismál og hafi sem besta tengingu við nám nemenda og þverfaglegt skólastarf.

Skilafrestur
Skilafrestur verkefna er til 26. mars 2021 og þau skal senda til:

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu,
Skuggasundi 1,
101 Reykjavík,
merkt ,,Varðliðar umhverfisins”

eða rafrænt á netfangið postur@uar.is.

Dómnefnd skipuð fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Landverndar og Miðstöð útivistar og útináms velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og valin verkefni verða verðlaunuð af umhverfis- og auðlindaráðherra í tengslum við Dag umhverfisins 25. apríl.

Samkeppnin er tækifæri fyrir nemendur og kennara til að koma á framfæri verkefnum sem þeir fyrrnefndu hafa þegar unnið í skólanum á skólaárinu og eiga skilið aukna athygli. Sömuleiðis er samkeppnin kjörin til að setja í gang verkefnavinnu þar sem sjónum er beint að umhverfismálum sérstaklega. Má í því sambandi benda á aukið vægi loftslagsmála í heiminum en óhætt er að segja að þau ná yfir afar fjölbreytt svið umhverfismála sem mörg hver tengjast með beinum hætti daglegu lífi barna og unglinga, s.s. samgöngum, lífsstíl og neyslu, orkunotkun, matarsóun, fatnaði, úrgangsmálum og svo mætti lengi telja. Ítrekað skal þó að hvers kyns verkefnum um umhverfismál er tekið fagnandi.

Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum um keppnina með tölvupósti til Önnu Sigríðar Einarsdóttur á netfangið anna.einarsdottir@uar.is

Aðstoðarálfar jólasveinsins gleðja frístundaheimili borgarinnar með góðgæti úr efnisveitunni. Húrra fyrir sjálfbærni og góðri nýtingu á náttúrulegum efnum sem falla til á höfuðborgarsvæðinu!

Frábær jólasveinaratleikur í Gufunesbæ yfir hátíðarnar. Tilvalin útiskemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Gleðilega hátíð kæru útivinir. Megi 2021 færa okkur öllum gleði, hamingju og fjölmargar skemmtilegar útistundir. Sjáumst hress og kát á nýju ári 💫

Opnað hefur verið aftur fyrir móttöku skólahópa á náttúrusýningar í Perlunni. Námsheimsóknirnar standa öllum 6. og 9. b. RVK til boða og nú með ÓKEYPIS RÚTUÞJÓNUSTU fyrir alla hópa!
Bókanir og frekari upplýsingar á síðunni okkar.

Þann 16. september síðastliðinn var Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur. Fjölmargir skólar í Reykjavík tóku þátt í deginum með því að vera með útikennslu. Í Breiðholtsskóla fóru nemendur í 3. bekk út í náttúruna og unnu saman að skemmtilegu útinámsverkefni þar sem þeir fundu efni til þess að búa til vegglistaverk. Nemendur skrifuðu nafnið sitt við myndina sína og hvaða hluti þeir notuðu í verkefninu. Á myndinni má sjá afraksturinn.