Hin árlega gönguferð MÚÚ fyrir starfsfólk skóla- og frístundasviðs verður farin fimmtudaginn 17. september 2020.

Mosfell í Mosfellsdal er 285 m hátt fell sem þægilegt er að ganga á og stendur fremst í mynni Mosfellsdals að norðanverðu. Fellið er merkilegt að því leiti því það er lang yngsta fjallið á þessu svæði. Það varð til við gos undir jökli fyrir um 450 þús. árum meðan til dæmis Esjan, sem breiðir úr sér á bak við fellið, er 2-3 milj.ára gömul.

Bærinn og kirkjustaðurinn Mosfell er gamalt höfuðból sem lúrir við fjallsrætur er sögufrægur m.a. fyrir það að Egill Skallagrímsson var þar síðustu æviár sín og segir sagan að hann hafi falið silfursjóði sína í nágrenninu.

Upphafstaður göngunnar er við Mosfellskirkju í Mosfellsdal.

Ekin er leiðin til Þingvalla og þegar komið er upp í Mosfellsdal er fljótlega ekið til vinstri upp að kirkjunni að Mosfelli sem er mjög áberandi undir hlíðum Mosfells.

Gengið er upp með gilinu ofan kirkju og farið eftir fjallinu til vesturs að hæsta hnúk. Hægt er að ganga sömu leið til baka eða, ef aðstæður eru góðar, að fara hring eins og kortið sýnir.

Gangan hefst kl. 18.00. við Mosfellskirkju þar sem hægt er að leggja bílum. Gangan fram og til baka er 4 km og hækkun er um 200 m.
Gera má gera ráð fyrir að hópurinn verði aftur við bíla um kl. 20.00. Að göngu lokinni verður hressing í boði SFS.

Klæðnað og útbúnað þarf að miða við veður og aðstæður. Munið eftir skjólfatnaði og góðum gönguskóm.