Almennt um sjálfbærnimenntun

Menntun er besta tækið sem við höfum til að upplýsa og fræða, hafa áhrif á, breyta og skapa nýtt og koma auga á nýja möguleika fyrir mannkyn til að lifa áfram á jörðinni. Menntun til sjálfbærni er sú menntun sem við þurfum til að lifa í sátt við jörðina. Sjálfbær þróun snýst fyrst og fremst um mannkynið og velferð þess og við getum öll lagt eitthvað af mörkum.

Hvernig virkar þetta í kennslu?: Sjálfbærnimenntun er frábært tæki fyrir nemendur til þjálfunar í gagnrýnni hugsun, að glíma við ágreiningsefni og vandamál og finna lausnir. Sjálfbærnimenntun er tækifæri til skapandi hugsunar og til að efla samkennd og réttlæti. Sjálfbærnimenntun snertir alla fleti grunnþáttanna í nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar en einnig má finna sjálfbærni í gildum skóla og markmiðum, það þarf bara að virkja hugsunina í átt til meiri skilnings á sjálfbærni.

Hvernig á svo að kenna sjálfbærni? Ekkert eitt fag hentar betur en annað til að kenna sjálfbærni. Sjálfbærnimenntun er þvert á allar námsgreinar. Börnin þurfa að læra að þekkja og skilja umhverfi sitt og náttúruna, en einnig að læra hver eru grunngildi sjálfbærni og lífsgildi skólans og samfélagsins. Síðan þarf barnið að læra að nýta sína styrkleika til þess að vinna meira með þau málefni sem barnið hefur trú á og hvernig best sé að koma grunngildum sjálfbærni í framkvæmd. Barnið þarf að læra að umbera aðra, skilja aðra menningu og læra að lifa í fjölmenningarsamfélagi. Svo er það geta til aðgerða; kunnátta og vilji til breytinga dugar skammt nema að við stígum skrefið og stuðlum að breytingum. Það þarf líka að læra að hvetja aðra og hafa áhrif á umhverfi sitt.

Viðfangsefni menntunar til sjálfbærni er jafn ólík og þau eru mörg. Þau snerta á öllum þáttum lífshátta mannsins og samspil manns og umhverfis. Mikilvægt er fyrir börn og ungmenni að fá tækifæri til að takast á við viðfangsefni sem hafa merkingu fyrir þau á hverjum tíma og hverjum stað, þ.e. í tengslum við þann raunveruleika sem þau þekkja. Tengsl viðfangsefna við heimili og nærumhverfi eru augljós en jafnframt þarf að varpa ljósi á samhengi þeirra við hnattrænan veruleika.

Að innleiða menntun til sjálfbærni í skólakerfið.  Allt skólasamfélagið þarf að taka þátt til að árangur náist. Stjórnendur þurfa að vera virkir, hafa áhuga og fylgja þessu eftir. Virkja kennara og nemendur einnig; bjóða upp á fræðslu eða vinnubúðir. Gott gæti verið að hafa lítinn hóp innan skólans sem fræðir aðra og leiðbeinir. Sniðugt að nota Facebook hópa til að deila hugmyndum og ráðum. Svo eru öflugir gagnabankar með verkefnum lykilatriði. Hér á vefsíðu Múú er tenging inn í slíka gagnabanka.

Ráðgjöf og fræðsla: Viltu vita meira? Viltu fá aðstoð við að vinna með sjálfbærni í þínum skóla? Vantar þig hugmyndir að verkefnum og vinnu? Hafðu endilega samband og við sjáum hvað við getum gert fyrir ykkur. Við bjóðum upp á fræðsluerindi fyrir kennara og skólastjórnendur en einnig aðstoð við að útfæra ykkar hugmyndir.

ECO ROAD

Handbók um Eco Road verkefnið

Náttúruskóli Reykjavíkur (fyrrverandi) ásamt Ártúnsskóla tóku þátt í Erasmus+ samstarfsverkefninu ECORoad – Improving education for sustainable development through development of school culture. Aðrir skólar og samstarfsaðilar voru frá Finnlandi, Belgíu og Englandi. Verkefnið hófst í september
2016 og hlaut Erasmus+ styrk til þriggja ára. Markmið verkefnisins er að bæta menntun í sjálfbærni með þróun á skólasamfélaginu sem heild. Verkefnið var tvískipt. Annars vegar var um að ræða námsdvöl kennara í þeim skólum sem tóku þátt í verkefninu og hins vegar vinnufundi þar sem fram fór upplýsingaöflun, undirbúningur og fræðsla sem m.a. var nýtt í gerð handbókar.

Vefsíða verkefnisins er https://ecoroad.weebly.com/ en handbókina má nálgast með því að smella á myndina hér til hliðar.

Sjálfbærni samofin öllu skólastarfi

Birtingarmynd úr öðrum skólum

Hér er dæmi um skóla í Ástralíu þar sem nemendur leiða umræðurnar og þau verkefni tengd sjálfbærni sem ætlunin er að ráðast í. Börnin vinna náið með ýmsum kennurum og húsverðinum að því að finna lausnir. Smellið á myndina til að lesa um skólann.

Sjálfbærni birtist í skólastarfi Grunnskólans á Hólmavík með ýmsum hætti en þau leggja áherslu á að stuðla að vilja og áhuga barnanna til þess að taka þátt í samfélaginu. Grunnskólinn hefur sett sjálfbærni í sína stefnu og er með mörg metnaðarfull markmið sem sjá má á lista hjá þeim (smelltu á myndina). Þau eru jafnvel með hænur!