COVID ÓVISSUÁSTAND
Sökum ástands í þjóðfélaginu féllu allar heimsóknir í Perluna niður á haustönn en innleiðing nýrra aðgerða gera okkur nú vonandi kleift að bæta upp fyrir missinn á vorönn. Starfsmaður á vegum Miðstöðvarinnar mun taka á móti öllum hópum í Perlunni og farþegaflutningar til og frá skólum verða í boði fyrir alla hópa.
Covid-19 – Sóttvarnir
- Sóttvarna mun gætt í hvívetna bæði í Perlunni og í farþegaflutningum. Meðan hertar aðgerðir standa yfir verða sýningar lokaðar almenningi og öðrum hópum á meðan vettvangsferðunum stendur.
- Hópar eru beðnir að sótthreinsa hendur þegar þeir ganga um borð í rútu og eins á sýningarsvæðum.
- Helstu snertifletir hópbifreiðar og sýningarsvæðis verða sótthreinsaðir milli hópa.
- Ekki er ætlast til a nemendur snæði nesti í Perlunni á meðan heimsókn stendur, né dvelji þar umfram heimsóknartíma.
Velkomin í Perluna
Í samstarfi við Reykjavíkurborg mun Perla norðursins og Náttúruminjasafn Íslands bjóða nemendum í grunnskólum borgarinnar í fræðslu, skemmtun og upplifun á náttúrusýningu Perlunnar.
Náttúrusýningin í Perlunni er gagnvirk sýning sem býður gestum að fræðast og upplifa undur íslenskrar náttúru án þess að yfirgefa borgina. Tæknin er nýtt til að skapa einstaka upplifun og deila fræðsluefni á nýjan og spennandi hátt sem gerir gestum kleift að vera fullum þátttakendum í skemmtilegu ferðalagi.
Markmið heimsókna
Markmið heimsóknanna er að gefa nemendum tækifæri til að dýpka skilning sinn enn frekar á samspili manns og náttúru. Í Aðalnámskrá grunnskóla skiptast hæfniviðmið um viðfangsefni nemenda niður í fimm eftirfarandi þætti, sem öll tengjast vel fræðslunni sem sýningar Perlunnar bjóða upp á:
- Að búa á jörðinni.
- Lífsskilyrði manna.
- Náttúra Íslands.
- Heilbrigði umhverfisins.
- Samspil vísinda, tækni og þróunar í samfélaginu.