Kveikja:
Kennari sýnir nemendum tré sem hann hefur greint. Kennari biður nemendur um að giska á hve margir búi í trénu. Við spurningunni er ekki til neitt eitt svar en það er víst að svörin verða ólík. Einnig má spyrja nemendur um hve marga þeir telja búa í trénu. Hægt er að líkja trénu við íbúðarblokk þar sem blokkin er eitt stórt hús þó að hún rúmi mörg heimili.
Á vettvangi:
Nemendum er skipt í hópa. Hver hópur fær í hendurnar greiningarlykil og hvítan dúk. Nemendur hvers hóps eiga að velja sér í sameiningu tré á því svæði sem kennari ákveður. Kennari gefur fyrirmæli um að nemendur eigi að greina tegund trésins og skoða svo lífríki þess með því að breiða dúkinn í kringum það og hrista það létt. Kennari getur lagt greiningardúkinn á mitt svæðið þannig að nemendur geta komið þangað til að greina smádýr ef einhver eru.
Mikilvægt er að brýna fyrir nemendum að trén eru lifandi og að okkur ber að fara um þau með virðingu. Einnig er mælt með að lífverur sem falla úr trjánum séu skildar eftir við trjáræturnar.
Á svæðinu er einkum að finna sitkagreni, stafafuru, ösp, gulvíði, birki og reynitré. Lífverur sem finna má í trjánum eru helst fiðrildalirfur og blaðlýs en einnig flugur, stökkmor, köngulær ofl. Líklegt er að nokkuð af könglum og/eða fræjum falli til jarðar er tréð er hrist.
Til nánari greiningar á smádýrum má benda á bókina Dulin Veröld.
Þegar búið er að hrista smádýrin niður á dúkinn má nota skordýraveiðu til að geta skoðað þau betur.