Kveikja:
Nemendur og kennari sitja í hring. Kennari kynnir nemendur fyrir mynstrum með því að láta annan hvern nemanda standa og hina sitja. Gera má ýmis mynstur með beinum hætti. Til dæmis má láta tvo nemendur rétta hægri hönd upp í loftið og næstu tvo nemendur rétta hendur beint út. Þarna væri komið mynstur. Mynstrið má svo endurtaka út allan hringinn. Eins má nota söng og tal.
Á vettvangi:
Kennari sýnir nemendum nokkur mynstur á viskastykkinu. Gott er að nota hráefni úr umhverfinu til þessa. Búa má til mynstur með barrnálum, grasstráum, steinum og könglum. Mikilvægt er að endurtaka fyrstu mynstrin nokkrum sinnum og hafa þau einföld. Einnig er mikilvægt í byrjun að mynstrið sé sýnt í heild sinni. Þannig vita nemendur að mynstrið er eitt mynstur sem er endurtekið. Þegar mynstrið liggur fyrir framan nemendur spyr kennari nemendur ,,hvað kemur næst?”. Þá hefst endurtekning á mynstrinu. Nemendur fá fyrirmæli frá kennara um að finna 2-3 hluti í umhverfinu (5-7 mín) Nemendur gera svo sín eigin mynstur. Krökkum finnst oft gaman að endurtaka mynstur sín og gera oft langar runur. Það er um að gera að gefa þeim frelsi til þess.