Kveikja:
Kennari biður nemendur um að hafa hljótt og leggja við hlustir.
Hvað heyra nemendur?
Eftir að nemendur hafa svarað spyr kennari hvort þeir haldi sig heyra meira ef þeir loki augunum.
Á vettvangi:
Kennari biður nemendur að leggjast niður eða sitja og loka augunum. Nemendur eru beðnir um að hafa hljóð í eina mínútu. Kennari tekur tímann. Nemendur fá fyrirmæli um að hlusta á hljóðin í umhverfinu. Eftir að mínútunni er lokið spyr kennari nemendur hvaða hljóð þeir hafi heyrt.
Eftirfarandi umræðuefni eru tilvalin til að ná markmiðum verkefnisins:
Hvernig hljóð eru þetta?
Úr hvaða átt koma þau?
Hvaða hljóð eru náttúruleg?
Hvaðan og frá hverjum koma þau?
Líklegt er að nokkuð beri á manngerðum hljóðum. Handan við vatnið er mikil uppbygging í gangi, þá helst í nýju hverfi Norðlingaholts. Þá er Suðurlandsvegurinn ekki langt frá. Á þessu svæði skiptast náttúruleg hljóð upp í fuglasöng (skógarþrestir, heiðlóur, hrossagaukar, stokkendur og hrafnar áberandi) og vind, golu og regnhljóð. Vatnið gárar einnig við bakka sína og hægt er að heyra ýmislegt ef að maður leggur við hlustir. Að umræðum loknum eru nemendur beðnir um að endurtaka leikinn en einbeita sér að lykt í þetta skiptið. Kennari tekur tíma í 1 mínútu. Tilvalið er að hvetja nemendur til að þreifa á á grasi eða greinum í kringum sig á meðan þeir loka augunum.
Eftirfarandi umræðuefni eru tilvalin til að ná markmiðum verkefnisins:
Hvaða lykt funduð þið?
Hvaðan kemur hún?
Hafið þið fundið hana áður?
Eftir að umræðurnar hafa farið fram er gaman að endurtaka leikinn enn einu sinni og einbeita sér að því að hlusta, lykta og verða einn af umhverfinu. Eftir að nemendur opna augun eru þeir beðnir um að deila upplifun sinni með samnemendum sínum.
Eftirfarandi umræðuefni eru tilvalin til að ná markmiðum verkefnisins:
Hvað sástu?
Hvernig leið þér?