Kveikja:
Kennari segir nemendum frá vampíru sem hann tók viðtal við. Vampíran var engin “venjuleg” vampíra heldur var hún mjög smávaxin og lifði aðeins í nokkra daga. Í stað skikkju hafði hún vængi og ferðaðist nokkuð með þeim. Hún saug blóð, en hafði samt ekki tennur. Vampíra þessi var bitmýfluga sem hafði komið úr eggi.
Á vettvangi:
Nemendur taka viðtöl við einhverja hluti í umhverfinu sem þeir telji að hafi áhugaverða sögu að segja. Þeir eiga að leita eftir skoðunum hlutarins og eiga að nota ímyndunarafl sitt til að fylla í eyðurnar. Nemendur byrja á því að ákveða við hvað þeir vilja taka viðtal. Þeir eiga að skoða hlutinn hver, helst frá öllum sjónarhornum. Ef hluturinn er planta eða steinn er líka gott að snerta hlutinn og finna áferðina. Nemendur eiga einnig að athuga hvort að aðrar lífverur lifi ef til vill á þeim sem þeir taka viðtalið við. Nemandi á að horfa á hlutinn úr nokkurri fjarlægð og virða fyrir sér hvernig hluturinn fellur inn í umhverfið. Nemendur skrifa spurningar og svör á blað.
Eftirfarandi spurningar eru tilvaldar til að ná markmiðum verkefnisins, gott er að styðjast við þær en hvetja nemendur einnig til að búa til eigin spurningar.
Viðtal við stein:
Hvernig er að vera steinn?
Hve gamall ertu?
Hefur þú alltaf verið af þessari stærð?
Hvaðan kemur þú?
Hvernig er það að búa hér?
Hver kemur að heimsækja þig?
Hvaða atburði hefur þú séð eða upplifað í lífi þínu?
Hefur þú eitthvað sértstakt að seja mér?
Viðtal við plöntu:
Notaðu sömu spurningar og fyrir steininn og reyndu að virða fyrir þér heiminn út frá sjónarhóli plöntu.
Viðtal við Dýr:
Taktu viðtal við dýr sem auðvelt er að fylgjast með. Það gæti verið fugl, fiskur eða smádýr. Fyglstu með dýrinu og
vertu varkár. Settu þig í spor dýrsins. Reyndu eftir bestu getu að fæla ekki dýrið né trufla það.
Hvert ertu að fara?
Hvað ertu að gera?
Þarftu að varast rándýr?
Hvað étur þú og hvar færðu fæðu?
Hvar býrðu?
Býrðu einn eða með öðrum?
Ferðastu til annarra staða?
Hvað myndi þig langa að segja öðrum um sjálfan þig?